Útgáfugleði Orators
30. janúar 2019
Orator í samstarfi við Ragnheiði Bragadóttur, prófessor, og Pál Sigurðsson, prófessor emeritus, stóðu fyrir útgáfugleði í Lögbergsdómi í dag í tilefni af bókaútgáfu Ragnheiðar og Páls.
Ragnheiður gaf nýverið út bókina Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Bókin er afrakstur mikils rannsóknarstarfs Ragnheiðar á ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot, hinni refsiverðu háttsemi og refsingum fyrir brotin ásamt samanburði við norrænan rétt. Ásamt því að fara yfir efni bókarinnar fór Ragnheiður yfir námsferil sinn en hún nam við Háskólann í Kaupmannahöfn, Framhaldsnám í refsirétti, afbrotafræði og refsipólitík. Enn fremur rifjaði Ragnheiður upp sín fyrstu skref sem kennari í Lagadeildinni og skemmtilega sögu frá Grænlandi.
Páll sigurðsson var prófessor við Lagadeildina frá 1973-2014 en hann gaf nýverið út bókina Lagaglæður : hugleiðingar um lög og lögfræði. Bókina má finna á eftirfarandi hlekki: https://rafhladan.is/handle/10802/16993 en einnig er hægt að panta prentað eintak af henni hjá Háskólaprenti. Páll fór yfir efni bókarinnar en í henni annars vegar er grein um Ármann Snævarr, prófessor og hæstaréttardómara, og hins vegar safn nokkurra greina, sem fjalla um lögfræðileg atriði og „óvenjuleg“ álitaefni frá sérstökum og að sumu leyti sérstæðum sjónarhóli. Páll, líkt og Ragnheiður, fór stuttlega yfir sinn langa og glæsta feril og rifjaði m.a. upp sín fyrstu skref eftir Lagadeildina, góða tíma á kennarastofunni í akademísku korterunum.