Móttaka nýnema 2020

Vel á annað hundrað nýnemar hófu nám við lagadeild Háskóla Íslands nú í september undir heldur óvenjulegum kringumstæðum. Í ljósi sóttvarnareglna var ekki hægt að bjóða nýnema velkomna með hefðbundnum hætti. Orator tók þess í stað á móti nýnemum á nýnemadaginn 28. ágúst og bauð upp á drykki og léttar veitingar í boði Ölgerðarinnar. Um kvöldið hélt Orator nýnemakvöld í húsnæði Lögbergs. Til þess að takmarka smithættu var nýnemum skipt upp í ellefu hópa og mætti einn hópur í einu og fengu kynningu á húsnæðinu, bóksölu Úlfljóts, lesstofu laganema og því starfi sem er framundan hjá Orator í vetur. Mikil ánægja var með nýnemakvöldið og stjórn Orators er einstaklega ánægð með hvernig til tókst undir þessum skrítnu aðstæðum.

 

Föstudaginn 4. september var farin nýnemaferð til Þingvalla líkt og hefð er fyrir. Ferðin var í boði Dominos. Tæplega hundrað nýnemar og fimm skiptinemar fengu fræðslu um upphaf réttarsögu Íslendinga á Þingvöllum og bauð Orator upp á drykki fyrir gesti. Í samræmi við sóttvarnareglur báru allir andlitsgrímur um borð í rútum sem flutti hópinn fram og til baka og sameiginlegir snertifletir voru sótthreinsaðir reglulega. Að ferðinni til Þingvalla lokinni kom hópurinn saman á Klambratúni í austurbæ Reykjavíkur þar sem boðið var upp á drykki og pizzur frá Dominos. 

 

Miðvikudaginn 9. september lauk nýnemamóttöku Orators með námstækninámskeiði sem fram fór í húsnæði háskólans. Kennarar námskeiðsins voru þau Karólína Ólafsdóttir, Sylvía Hall og Árni Svavar Johnsen. Síðari hluti námskeiðsins fer fram 1. október næstkomandi.

Article photo