Málþing Orators - Er hægt að leggja á stóreignaskatt?

Þann 8. október síðastliðinn fór fram vel heppnað málþing Orators þar sem þeirri spurningu var varpað fram hvort hægt sé að leggja á stóreignaskatt og þá hvernig, með sérstöku tilliti til eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, og loks viðhorfum velt upp um hvort slík skattlagning sé yfirhöfuð heppileg.

Vala Valtýsdóttir, héraðsdómslögmaður hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur, fór yfir þýðingu skatts, þau stjórnarskrárákvæði sem koma til álita og stiklaði á stóru sögu eignaskatta á Íslandi. Þar að auki varpaði Vala þeirri spurningu fram hvort til þurfi að vera einhver réttlætanlegur tilgangur skattlagningarinnar - sennilega sé svo ekki en í skattalögum væri ávallt viss réttlæting fyrir viðkomandi skatti, þar sem eignatilfærsla, samþjöppun á eignarhaldi og lágir fjármagnstekjuskattar notaðir sem slík. 

Næst tók til máls Víðir Smári Petersen, dósent við lagadeild og hæstaréttarlögmaður á Lex lögmannsstofu, sem fór yfir vandamál sem geta risið við lagningu stóreignaskatts, almennar reglur um skattlagningu, dóma Hæstaréttar og MDE, ályktanir og útfærsluatriði í átt að auknu meðalhófi. Þar kom meðal annars fram að tekjur gjaldanda standa ekki endilega undir greiðslu skattsins, að eignir geti hækkað fyrir tilstilli utanaðkomandi áhrifa og að stóreignaskattar geti verið ólögmætir ef þeir eru háir og til langs tíma - dæmi um slíkan skatt væri stóreignaskatttur sem væri 20% af hreinni eign og innheimtur í tíu ár.  

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór þá yfir vandkvæðin sem kynnu að fylgja álagningu stóreignaskatts og dró þar sérstaklega fram að grunnur stóreignaskattsins sé illa skilgreindur, en ein forsenda þess að hægt sé að uppfylla jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sé sú að ljóst sé hverjar eignir það séu, sem beri að skattleggja.  

Við þökkum kærlega fyrir góða aðsókn á fyrsta málþing vetrarins!

Article photo