Málþing í stafrænu formi

Fyrsta málþing Orators þetta skólaárið var haldið miðvikudaginn 21. október síðastliðin, en umræðuefni þingsins var Hæstiréttur Bandaríkjanna.

            Fundurinn hófst tímalega klukkan tólf og hófst með því að fundar og menningamálastjóri Orators Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir setti fundinn og kynnti til leiks framsögumenn málþingsins.

 

Fyrst tók til máls Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands sem fjallaði um stjórnskipun Bandaríkjanna og stöðu hæstaréttar Bandaríkjanna í því samhengi. Silja benti meðal annars á að dómstóllinn hefur talsverð áhrif miðað við æðstu dómstig annara landa. Þá fjallaði hún um m.a. um skipunartíma, útskiptingu dómara og  fjölda dómara. Þá fjallaði hún um sögulega þróun réttarins og þau miklu áhrif sem pólitískir áhrifavaldar hafa við skipun dómara við dómstólinn. Að lokum fjallaði Silja um að í hennar huga væri spurningin hvort Amy Coney Barrett myndi fylgja skoðunnarbræðrum sínum, eða sýna meira sjálfstæði í störfum sínum við réttinn. 

 

Næstur tók Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari og starfandi lögmaður til máls og fjallaði um Antonin Scalia og hans heimsspeki og hugsjón við dómara störf. Jón fjallaði sérstaklega um mikilvægi þrískiptingar valds og hlutverk dómstólana í því samhengi. Þá reifaði Jón það sjónarmið að hver valdhafi sé bundin við það vald sem honum sé veitt og að það sé almennt ekki á hendi dómstóla að taka pólitískar ákvarðanir. Að lokum benti Jón á að Amy Coney Barret væri af sama skóla og Scalia og að þróun réttarins hafi verið í þá átt seinustu ár. 

 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, lögfræðingur og alþingismaður tók þá til máls og fjallaði um Ruth Bader Ginsburg. Þorbjörg fjallaði meðal annars um aukinn fjölda kvenkyns dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna og veltir fram spurningunni hvort að sú staðreynd að Ginsburg var aðeins annar kvennkynsdómarinn við dómstólinn hafi mögulega haft áhrif á ákvarðanir réttarins. Þorbjörg fjallaði um að mismunandi niðurstöður dómara leiði ekki endilega til þeirrar fullyrðingar að annar dómarinn sé að beita aðferðarfræði lögfræðinnar ranglega, heldur að grundvöllur dóma væri að lokum fólkið sem ritaði þá þótt að hver og einn dómari þyrfti að vera vakandi fyrir sínum eigin fordómum. Þá séu ýmsir þættir sem hafi áhrif á ritun dóma og að það sé eðlilegt að fólk þróist í starfi. Þá fjallaði hún um þróun Ginsburg í skrifum dóma, hvernig hún var læs á salinn og valdi dómsmál þar sem niðurstaðan var til þess fallin að hafa mikil áhrif þótt að málin væru ef til vill ekki stór.

 

Seinastur tók til máls Kári Hólmar Ragnarsson, lögmaður og stundakennari við Háskóla Íslands.

Kári fjallaði um samanburð Hæstaréttar Íslands og Hæstaréttar Bandaríkjanna. Kári fjallaði fyrst stuttlega um þau fjöldamörgu atriði sem skilja dómana að. Kári benti þá á að vægi stjórnarskrárinnar væri töluvert í Bandarískum rétti og að mörg mál væri því hægt að taka fyrir hjá dóminum á meðan að ekki væri jafn mikill hiti á Hæstarétti Íslands í þessu efni.

Því næst fjallaði hann um tvennskonar gerðir mála sem upp koma í dómstólunum og mismunandi beitingu dómstólana í slíkum málum. Fyrst nefndi hann að siðferðismál, þar sem að minnihlutahópar sækja rétt sinn fyrir dómstólum, séu algeng í Bandaríkjunum og að vægi Hæstaréttar í þeim málum væri töluvert, nefndi Kári sem dæmi réttindabaráttu samkynhneigðra og svartra. Kári benti á að fá slík mál væru til í dómasafni Hæstaréttar Íslands. Þá fjallaði Kári um mál þar sem að dómstólarnir hafa beinlínis beitt sér gegn öðrum valdhöfum, en í slíkum tilvikum er að finna nokkur dæmi úr dómaframkvæmd Hæstaréttar Bandaríkjanna en afar fá dæmi um þetta er að finna í íslenskri dómaframkvæmd. Þá benti Kári einnig á að ekki sé hægt að fella íslensk dæmi úr dómaframkvæmd jafn skýrlega undir slíka hagsmunagæslu. 

 

Stafræn útfærsla var með því móti að samskiptaforritið Zoom var notað til að senda fundinn út. Útfærslan tókst með eindæmum vel, en 115 manns tóku þátt í fundinum þegar mest á stóð og lífleg umræða var um málefnið eftir að framsögum lauk. 

LEX lögmannsstofan er aðalstyrktaraðili fræðastarfs Orators. 

Article photo