Kennsluverðlaun Orators 2021

Kennsluverðlaun Orators voru veitt í tíunda skiptið á hátíðarmálþingi Orators síðastliðinn miðvikudag. Að þessu sinni hlaut Benedikt Bogason, prófessor, verðlaunin.

Markmiðið með veitingu verðlaunanna er að heiðra þann kennara sem þykir hafa skarað fram úr í kennslu við lagadeild Háskóla Íslands en jafnframt að vera öðrum hvatning, bæði kennurum og nemendum, til að hafa áhrif á þróun og framfarir í kennslu deildarinnar. 

Stjórn Orators óskaði eftir tilnefningum frá nemendum og barst allmargar. Nokkrir kennarar voru tilnefndir og ekki auðvelt að velja úr. Benedikt Bogason skaraði þó fram úr að þessu sinni. Hæst bar ómæld þolinmæði hans og virðing fyrir nemendum, líflegir kennsluhættir, auk þess sem hann fékk sérstakt hrós fyrir gríðarlega aðlögunarhæfni að fjarkennslufyrirkomulagi.

Þar sem málþingið var haldið með rafrænum hætti hitti stjórn Orators Benedikt fyrir að málþingi loknu í Hæstarétti, þar sem hann veitti verðlaununum viðtöku.

Benedikt þakkaði kærlega fyrir sig og sagðist stoltur að hafa fengið að vinna með nemendum deildarinnar í 28 ár. Síðastliðið haust þótti honum tilhugsunin um að kenna á bakvið tölvuskjá ekki sérlega skemmtileg en sagði nemendur eiga hrós skilið fyrir aðlögunarhæfni sína, vinnusemi og góðan árangur - þó hann vonaðist auðvitað til að geta hitt nemendur í kennslustofu sem fyrst!

Benedikt er vel að verðlaununum kominn og óskar stjórn Orators honum innilega til hamingju!

Article photo