Stjórn Orators veitti kennsluverðlaun í ellefta skipti á hátíðarmálþingi Orators, 16. febrúar síðastliðinn.

Markmiðið með veitingu verðlaunanna er að heiðra þann kennara sem þykir hafa skarað fram úr í kennslu við lagadeild Háskóla Íslands en jafnframt að vera öðrum hvatning, bæði kennurum og nemendum, til að hafa áhrif á þróun og framfarir í kennslu deildarinnar.

Jón Þór Ólason, lektor, hlaut kennsluverðlaunin þetta árið en hann hefur einstakt lag á því að vekja áhuga nemenda á refsirétt.

Fyrirlestrar Jóns Þórs bera þess merki að vera vel undirbúnir og fluttir í því augnamiði að kveikja áhuga nemenda á námsefninu hverju sinni með því tengja námsefnið við raunheima og líðandi stundu, virkja nemendur til samræðna og gagnrýni á viðteknar venjur á réttarsviðinu og síðast en ekki síst með gamansaman og fjörlegan frásagnarstíl að vopni.

Jón Þór á verðlaunin svo sannarlega skilið og óskar stjórn Orators honum innilega til hamingju!