Kennsluverðlaun Orators 2018

 
 
Skólaárið 2017-2018 hefur stjórn Orators ákveðið að veita kennsluverðlaun Orators í sjöunda skipti.
 
Markmið með veitingu verðlaunanna er að heiðra þá kennara sem þykja hafa skarað fram úr í kennslu við lagadeild Háskóla Íslands en jafnframt að vera öðrum hvatning, bæði kennurum og nemendum, til að hafa áhrif á þróun og framfarir í kennslu deildarinnar. 
 
Óskað er eftir tilefningum frá nemendum en kennsluverðlaunin verða afhent á hátíðarmálþingi Orators þann 12. febrúar næstkomandi. 
 
Kennsluverðlaun Orators skulu veitt kennara sem:
 • Vekur áhuga nemenda á námsefninu og fræðasviði þess.
 • Hvetur nemenda til gagnrýninnar hugsunar um námsefnið.
 • Hvetur til umræðu við nemendur um námsefnið.
 • Tengir námsefnið hagnýtum viðfangsefnum.
 • Sýnir nýbreytni í kennsluaðferðum- og kennsluháttum.
 • Sýnir nemendum virðingu og þolinmæði í samskiptum.
Um val á kennara sem veita skal kennsluverðlaun gilda eftirfarandi reglur:
 • Stjórn Orators auglýsir eftir tilnefningum til kennsluverðlauna í lok janúar.
 • Allir nemendur lagadeildar geta tilnefnt kennara til verðlaunanna, óháð því hvenær nemandi sat námskeið hjá viðkomandi kennara.
 • Hæfir til tilnefningar eru prófessorar, dósentar, lektorar og aðjúnktar við lagadeild sem og stundakennarar.
 • Í tilnefningu skal koma fram nafn kennara og námskeið ásamt stuttum rökstuðningi fyrir tilnefningunni.
 • Þegar tilnefningum hefur verið safnað saman skulu formaður stjórnar Orators, varaformaður og ritstjóri Úlfljóts fara yfir tilnefningarnar með hliðsjón af þeim viðmiðum sem sett hafa verið um kennsluverðlaun Orators. Leita má ráðgefandi álits hjá hagsmunafulltrúum hvers árs þegar komist er að niðurstöðu um hverjum kennara skuli veita verðlaunin.
 • Meðlimir í stjórn Orators mega ekki tilnefna kennara til kennsluverðlauna.
Tilnefningar skulu berast á orator@hi.is fyrir 7. febrúar næstkomandi og hvetjum við alla nemendur til þess að senda inn tilnefningar.
 
 
Article photo