Hátíðarmálþing Orators 2019

Miðvikudaginn 13. febrúar var Hátíðarmálþing Orators haldið í tilefni af árshátíð laganema, líkt og venja er.

Framsögumenn á málþinginu voru Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður og einn af eigendum Logos lögmannsþjónustu, Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild HÍ og Súsanna Björg Fróðadóttir, lögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Fundarstjóri var Fjölnir Daði Georgsson, funda- og menningarmálastjóri Orators.

Yfirskrift málþingsins var: Mansal - íslenskur raunveruleiki. Í lok síðustu viku bárust fréttir af hryllilegum aðbúnaði og kjörum rúmenskra verkamanna sem voru starfsmenn starfsmannaleigu hér á landi. Í byrjun þessarar viku bárust enn fremur fréttir af aðgerðum lögreglu á kampavínsklúbbi í Austurstræti vegna gruns um mansal, vændi og skipulagða brotastarfsemi. Mansal er því nær okkur en við kannski gerum okkur grein fyrir, það er því mikilvægt að taka umræðuna um mansal og fá hana upp á yfirborðið.

Heiðar Ásberg fjallaði um margvíslega snertifleti nútíma þrælahalds m.a. skattgreiðslur á hlunnindum, samningsfrelsi og samkeppnismál. Heiðar velti að lokum upp nokkrum spurningum um sjálfboðaliðastarf og ólaunuð starfsnám ásamt því að rifja upp þegar hann sinnti starfsnámi hjá héraðsdómi Reykjavíkur og sjávarútvegsráðuneytinu.

Brynhildur Flóvenz fjallaði um þær réttarheimildir sem eiga við í mansals málum en þar komu almennu hegningarlögin við sögu ásamt samningi S.Þ., Palermó samninginn o.fl. Brynhildur benti viðstöddum á kvikmynd sem heitir Lilya 4-Ever en myndin fjallar um unga stúlku frá Eistlandi sem bjó þar við slæmar aðstæður. Stúlkan er svo blekkt til þess að flytja til Svíþjóðar þar sem hún er læst inni og seld í vændi.

Súsanna Björg fjallaði um margvíslegar birtingarmyndir og staðalímyndir mansals, saknæmisskilyrði almennra hegningarlaga fyrir mansali á Íslandi. Enn fremur fjallaði Súsanna um almenn einkenni mansals sem almenningur getur verið vakandi fyrir.

Orator þakkar Heiðari, Brynhildi og Súsönnu kærlega fyrir áhugaverð erindi og þátttökuna í Hátíðarmálþinginu.

Article photo