Framlengdur frestur fyrir umsóknir í nefndir Orators

Heil og sæl kæru laganemar

Fresturinn til að sækja um í nefndir Orator hefur verið lengdur til 11. september. Þá hafið þið helgina til að semja góða umsókn og töfra ykkur inn í öfluga nefndarstarfið sem Orator býður upp á.

Nefndirnar sem er í boði að sækja um eru eftirfarandi:

 
Norræn nefnd
Hlutverk nefndarinnar er að undirbúa með alþjóðaritara móttöku norrænna laganema dagana 13. - 18. febrúar 2018. Nefndin sér um skipulagningu og framkvæmd heimsóknarinnar ásamt því að taka þátt í atburðum vikunnar.
 
Funda- og menningarmálanefnd
Nefndin er funda- og menningamálastjóra innan handa við undirbúning fræðilegra sem og menningarlegra viðburða á vegum félagsins.
Helstu hlutverk nefndarinnar eru að að standa fyrir málfundum og fræðafundum, undirbúa ræðukeppnina Orator Oratorum og fleiri atburði tengda funda- og menningarmálum Orators.
Einnig mun nefndin á þessu skólaári skipuleggja Málflutningskeppni Orators sem haldin er á tveggja ára fresti.
Skipuð verður að hámarki átta manna nefnd sbr. 5. mgr. 19. gr. laga Orators
 
Skemmtinefnd
Skemmtanastjóri fer fyrir skemmtinefnd og er hlutverk nefndarinnar að vinna að skipulagningu og framkvæmd skemmtana á vegum Orators. Skemmtanir innihalda, kokteila, árshátíð félagsins og aðra skemmtanaviðburði.
Skipuð verður að hámarki 8 manna nefnd sbr. 6. mgr. 19. gr. laga Orators.
 
Margmiðlunarnefnd
Skemmtanastjóri fer fyrir margmiðlunarnefnd og er hlutverk nefndarinnar að taka upp og mynda viðburði Orators, bæði skemmtanir og málþing. Eitt helsta hlutverk nefndarinnar verður að taka upp árshátíðarmynd Orators. Nefndin mun einnig sjá um að klippa og vinna myndefni og búa til annál Orators sem gefinn verður út í lok skólaárs.
Nefndin hefur þannig heimild til að gera allskonar lagagrín að eigin vild en hún mun vinna náið með skemmtinefnd og fílabeinsturni Gríms Geitskós, félagsrits laganema.
 
Atvinnunefnd
Atvinnunefnd Orators sér um að koma á samstarfi Orators við fyrirtæki og stofnanir um ráðningar laganema við Háskóla Íslands í störf á sviði lögfræðinnar. Nefndin vinnur markvisst að því að kynna lagadeildina sem allra best út á við og stuðla að uppbyggilegri kennslu við deildina. Þannig styrkir nefndin stöðu laganema við Háskóla Íslands á vinnumarkaði, víkkar út tengslanet félagsmanna og stuðlar að því að þeir fari hæfari út á atvinnumarkað þegar þar að kemur.
 
Starf atvinnunefndar er þannig gríðarlega mikilvægt og hefur undanfarin ár opnað fjölmargar dyr fyrir laganema út á vinnumarkaðinn. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að vinna að því að styrkja hag samnemenda sinna til að sækja um stöðu í nefndinni, óháð námsári
 
Dómstjóri Lögbergsdóms
Lögbergsdómur starfar samkvæmt 37. gr. laga Orators. Lögbergsdómur er dómstóll laganema við lagadeild Háskóla Íslands en samkvæmt 37. gr. laga Orators skulu Orator og Úlfljótur í sameiningu starfrækja dómstólinn og frekari lýsingu á verksviði dómstjóra má finna í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga Oratorsmá þann einan skipa í embætti dómstjóra sem lokið hefur BA-prófi frá lagadeild Háskóla Íslands.
 
Við mat á hæfni umsækjenda skal meðal annars líta til námsárangurs, starfsreyndlu og framtakssemi. Í embætti dómstjóra Lögbergsdóms skipa: Fráfarandi dómstjóri Lögbergsdóms, formaður Orators og ritstjóri Úlfljóts, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga Orators. Fram þurfa að koma eftirfarandi upplýsingar: Fullt nafn, námsár, yfirlit yfir einkunnir, fyrri störf, ástæður umsóknar og annað sem umsækjandi vill að komi fram.
 
Umsóknarfrestur fyrir þessar stöður og nefndarstörf rennur út á miðnætti 7. september næstkomandi og verða nefndir skipaðar í kjölfarið. Umsóknir skulu berast á netfangið orator@hi.is.
 
Í umsókn skal koma fram: Nafn, námsár, upplýsingar um fyrri félagsstörf ef einhver eru og annað sem að umsækjandi vill að fram komi.
 
Hugheilar kveðjur,
Stjórn Orator
<3
Article photo