Upprifjunarnámskeið á krefjandi tímum

Orator heldur uppteknum hætti og býður upp á námskeið í öllum áföngum grunnámsins.

Upprifjunarnámskeið Orators hafa á síðustu árum verið veigamikill hluti prófaundirbúnings laganema fyrir lokapróf á vor og haustmisserum. Eins hafa námskeiðin veitt nemendum deildarinnar í framhalds- og grunnámi tækifæri til að kynnast starfi kennara í þeim námsgreinum sem þeir skara fram úr í, en sú reynsla hefur reynst mörgum vel. Óhætt er að segja að námskeiðin séu orðin einn af þeim stóru þáttum starfs Orators sem snýr að hagsmunagæslu nemenda. 

Í ljósi þess að prófafyrirkomulag nú á vormisseri verður með breyttu sniði og vegna aðgerða stjórnvalda til að sporna við útbreiðslu Covid-19 veirunnar, hefur stjórn Orators í samstarfi við kennara hvers og eins upprifjunarnámskeiðs útfært breytt kennslufyrirkomulag, sérstaklega til að koma til móts við þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru uppi. Við útfærsluna var haft að leiðarljósi að tryggja gæði námskeiðanna með sem bestum hætti. 

Allar upplýsingar um námskeiðin, fyrirkomulag þeirra og þá frábæru kennara sem Orator hefur fengið til liðs við sig er að finna á Facebook síðunni „Upprifjunarnámskeið Orators“ https://www.facebook.com/namskeidorators/. Vert er að benda á að námskeiðsgjöldin hafa verið lækkuð í ljósi aðstæðna, m.a. vegna þess að Orator hefur ekki þurft að standa undir kostnaði vegna aðstöðu undir námskeiðin, á sama tíma og gætt er að gæðum námskeiðanna. 

 

Um leið og stjórn Orators óskar öllum nemendum Lagadeildar góðs gengis í prófum og undirbúningi fyrir lokapróf, viljum við þakka kennurum upprifjunarnámskeiðanna fyrir farsælt samstarf við undirbúning þeirra. 

Article photo