Tilkynning

Eins og fram kom í kvöldfréttum RÚV sl. þriðjudag vill Orator leiðrétta allan þann misskilning sem myndast hefur vegna auglýsingar sem Atvinnunefnd Orators sendi frá sér í tengslum við ólaunað starfsnám sem félagsálaráðuneytið bauð upp á.

Í erindi BHM til félagsmálaráðuneytisins kemur eftirfarandi fram, „Í því tilviki sem hér um ræðir má ætla að fyrir mistök hafi m.a. verið auglýst eftir einstaklingi sem hefur lokið BA og MA gráðu í lögfræði.“ Það er rétt hjá BHM að um mistök var að ræða þegar auglýst var eftir starfsnema sem þegar hefði lokið námi, enda er sá einstaklingur ekki lengur nemi heldur kominn út á vinnumarkaðinn. Enn fremur var gerð krafa í auglýsingunni um að viðkomandi hefði getu til að vinna sjálfstætt en markmið starfsnáms er einmitt að nemendur fái þjálfun í að vinna lögfræðitengd störf undir eftirliti lögfræðings hjá stofnun eða fyrirtæki sbr 2. gr. reglna um námsvist nemenda í framhaldsámi við lagadeild Háskóla Íslands, samkvæmt 6. mgr. 93. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

Starfsnám sem Orator hefur milligöngu um eru ýmist launuð eða ólaunuð. Eins og fram kemur í bréfi BHM eru mörkin milli starfsnáms og ólaunaðra starfa mjög óskýr og er því mikilvægt að auglýsingar Orators um ólaunað starfsnám séu skýrar og ótvíræðar. Ólaunuð starfsnám sem Orator hefur milligöngu um eru metin til eininga eins og 2. gr. reglna um námsvistir nemenda gera ráð fyrir.

Íslenskir háskólar hafa búið til regluverk um starfsnám nemenda í framhaldsnámi og fylgir Atvinnunefnd Orators þeim reglum. BHM hefur þó ekki samþykkt regluverkið. Hvort starfsnám eigi að vera launað eða ekki er annað og stærra álitaefni sem Orator kýs að taka ekki afstöðu til í þessari yfirlýsingu enda snúa athugasemdir BHM þess efnis að ráðuneytinu. Orator er stolt af því frábæra starfi sem Atvinnunefnd félagsins stendur fyrir enda er mikilvægt að laganemar fái tækifæri til að öðlast reynslu á atvinnumarkaði samhliða námi. Orator mun halda áfram að hafa milligöngu um ólaunað starfsnám á meðan verklag Háskólans helst í sama formi.

Við hörmum þessi mistök og hefur Orator tekið þessar athugasemdir BHM við auglýsingunni til skoðunar. Framvegis verður sá hátturinn hafður á að einingar munu fást fyrir starfsnám sem félagið hefur milligöngu um og að nemendur séu undir handleiðslu reyndra lögfræðinga. Þá verður starfsnámið einungis ætlað nemum, en ekki útskrifuðum lögfræðingum, eins og hefur verið stefna félagsins hingað til.

Stjórn Orators

Article photo