Hátíðarmálþing Orators 2019

Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, stendur fyrir hátíðarmálþingi miðvikudaginn 13. febrúar n.k. klukkan 12:00 í L101.

Í lok málþingsins verða kennsluverðlaun Orators veitt. Veiting verðlaunanna og málþingið eru í tilefni af árlegum hátíðardegi laganema sem er 16. febrúar ár hvert. Heiðursgestur Orators í ár er Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður og einn eigenda Logos lögmannsþjónustu.

Það er ómögulegt að vita hversu margir þolendur mansals eru ár hvert en talið er að þeir skipta hundruðum þúsunda kvenna, barna og manna um allan heim. Birtingamyndir mansals eru margvíslegar og það getur því verið erfitt fyrir almenning að þekkja einkenni þess. Vinnuánauð og kynlífsþrælkun hafa færst í vöxt og eru gríðarlega arðbær glæpastarfsemi sem oft er stýrt af áhrifamiklum glæpasamtökum. Í 1. mgr. 227. gr. a. alm. hgl. er að finna almennt ákvæði sem fjallar um mansal en það á rætur sínar að rekja til Palermó-samningsins. Ísland gerðist aðili að samningnum árið 2000 og er hann viðbót við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi. Tilgangur samningsins var að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna. Mansal er því miður raunveruleikinn á Íslandi og það er því mikilvægt að fjalla um málefnið, skapa umræðu og koma henni upp á yfirborðið.

Framsögumenn eru:
Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður og einn eigenda Logos lögmannsþjónustu.
Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild Háskóla Íslands.
Súsanna Björg Fróðadóttir, lögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

Fundarstjóri verður Fjölnir Daði Georgsson, funda- og menningarmálastjóri Orators. Við vonumst til að sjá sem flesta á málþinginu sem er að sjálfsögðu opið öllum. Að málþinginu og afhendingu kennsluverðlaunanna loknu verða léttar veitingar í boði.

Lex lögmannsstofa er aðalstyrktaraðili fræðastarfs Orators.
Funda- og menningarmálanefnd Orators 2018-2019.

Article photo